Saturday, January 20, 2007

Já, ég get ekki annað en sagt að síðast liðna vika hefur verið ein erfiðasta í vinnunni ever.... Ég er nefnilega að minnka verulega við mig tímana í vinnunni núna þegar ég er að fara að byrja í skólanum. Verð bara að vinna 8 til 10 tíma á viku í mesta lagi. Það náttúrulega þýddi það að ég þurfti að kveðja 3 af börnunum mínum. Það er það erfiðasta sem ég geri og það að þurfa að kveðja 3 í sömu vikunni var alveg hrikalegt. Kvaddi Claire littlu dúllu á miðvikudaginn. Hún er sú eina sem ég gat nokkurn veginn útskýrt fyrir að ég myndi ekki koma aftur. Hún virtist skilja það að mestu eftir að ég bjó til nokkurs konar félagsfærni sögu handa henni en hún heldur samt ennþá að ég sé að fara í sama skóla og hún:)
Erfiðast var það í dag þegar ég þurfti að kveðja hann Jonah. Ég er búin að vinna með honum nú í næstum 3 ár og hann var fyrsta barnið sem ég vann með þegar ég byrjaði í þessu. Hann meira að segja fylgdi mér þegar ég skipti um fyrirtæki fyrir 2 árum. Hann skilur örugglega ekkert afhverju ég er hætt að koma til hans. Reyndi náttúrulega að segja honum að ég myndi ekki koma aftur til hans en hann virtist meira vera fókuseraður á blöðrunni sem hann var að naga. En maður veit samt aldrei, gæti vel verið að hann skilji. Hef á tilfinningunni að hann skilji meira en við höldum. Það er svo erfitt þegar maður verður svona rosalega tengdur krökkunum.... en það er ekki hægt annað. Maður er heima hjá þeim í marga klukkutíma á dag nokkrum sinnum í viku og gengur í gegnum súrt og sætt með þeim. Sem betur fer er þessi vika búin, ég er búin að kvíða henni núna í nokkra mánuði síðan ég ákvað að ég þyrfti að minnka vinnuna.

Ætla að fara að drekkja sorgum mínum og opna rauðvínsflöskuna sem amma hans Jonah gaf mér í dag... hún lítur voðalega vel út:)

Ragna

Wednesday, January 10, 2007

Við bíðum spennt eftir morgundeginum því það á kannski að snjóa á morgun.... jáhá. Það er búið að vera í fréttum síðustu daga að það verði rosalega kallt á fimmtudeginum og föstudeginum og hitinn fer jafnvel niður fyrir frostmark.... úfff.... Fólk lætur eins og næsta ísöld byrji á morgun og er farið að breiða lök yfir appelsínutrén sín:) Það snjóar náttúrulega voðalega sjaldan hérna, þannig að ég er ekkert að ýkja að ég er bara nokkuð spennt og spurning hvort ég verði ekki bara með visa kortið tilbúið í fyrramálið til þess að skafa af bílnum......!!!!

Læt ykkur vita um gang mála:)

Sunday, January 07, 2007

Allir að horfa á An Inconvenient Truth með Al Gore.....
Nú er búið að bæta við nýársheit á þessu heimili.... byrja að setja dósir í endurvinnslu, hafa ískápinn opin ef að íbúðin verður of heit og kveikja á kertum ef okkur verður of kalt. Ómari verður ekki skutlað í vinnuna og skólann þegar hann getur alveg eins notað hjólið eða labbað, ég fæ samt að fara á bílnum í skólann því ég er löt.....ummmm hvað meira.... við eigum Toyotu sem er víst voða pósitíft svona umhverfisvænlega séð..... við kaupum ekki mat í umbúðum. Förum bara með pappírspokann okkar og tínum grænmeti, ávexti og baunir í hann og drekkum bara vatn. Hey, þá þurfum við ekki að fara með Pepsi dósirnar í endurvinnsluna!!!!!!

Spurning um að hemja sig aðeins, en ég mæli samt með myndinni:)

Bæjó,

Ragna Laufey sem á að vera að gera eitthvað allt annað en að bulla á blogginu

Wednesday, January 03, 2007

Gleðilegt nýtt ár allir saman!!!!
Hátíðirnar fóru bara vel fram á þessu heimili. Á aðfangadag buðum við vinum okkar í hangikjöt, kalkún og með því.... við vorum nefnilega ekki viss um að öllum þætti hangikjötið gott þannig að við ákváðum að bjóða upp á eitthvað annað líka. Allt heppnaðist bara voða vel, það vel að allur matur kláraðist og það eina sem við höfðum að borða á jóladag var fyllingin á ristað brauð. Það var nú samt allt í lagi því hún var alveg ROSALEGA góð:) Þetta var líka allt voða alþóðlegt því það voru samankomnir, 2 íslendingar, 4 ameríkanar og einn Japani. Næstu jól ætlum við að reyna að bæta enn einni heimsálfu við og vinna okkur upp smá saman....
Gamlárskvöldi eyddum við heima hjá Laufey og Orra þar sem við drukkum nokkuð af kampavíni á meðan við dönsuðum við Stuðmenn í botni. Það er samt komin tillaga þess efnis að það verði aðeins meiri tilbreyting í tónlist næstu áramót.

Þegar maður fer að hugsa tilbaka þá heppnaðist árið 2006 bara svaka vel. Fengum marga góða gesti og náðum að fara til Íslands í sumar til að hitta fjölskylduna. Ég komst með annan fótinn inn í skólann og Ómar gerði rosalega vel í náminu sínu. Vonandi verður næsta ár eins gott.... eða bara betra....!!! Ég er allavegana komin með farmiða til Íslands í hendurnar:) Málið er það að hann litli bróðir minn er að fara að fermast um páskana og auðvitað verður maður að vera viðstaddur. Ég er nú ekki alveg að trúa því að hann sé að fara að fermast.... ég meina ég hélt á honum undir skýrn í fermingarveislunni minni og það er ekki það langt síðan ég fermdist..... eða er það!?! Hann minnti mig góðfúslega á fyrir nokkrum vikum að á þessu ári verð ég akkúrat tvisvar sinnum eldri en hann..... díses kr.....
Ég reyndar hafði lofað honum að ég myndi láta skýra barnið mitt í hans fermingarveislu en það er víst of seint að plana það núna þannig að ætli ég verði ekki að láta af þeim plönum.... En allavegana þá næ ég að vera 10 daga heima og verða viðstödd þennan stórviðburð.

Vonandi voru jólin og áramótin góð hjá ykkur öll og vonandi standið þið við öll áramótaheitin ykkar, alveg eins og ég mun geraJ Braut reyndar eitt strax 2. jan. en það voru bara byrjenda mistök og ég er aftur komin á rétta braut!!!!

Bæjó spæjó,

Ragna Laufey